Kanadíski knattspyrnumaðurinn Jonathan David, sóknarmaður Lille í Frakklandi, er eftirsóttur af fjórum enskum úrvalsdeildarfélögum ásamt tveimur ítölskum félögum í A-deildinni.
Sky Sports greinir frá en nefnir ekki félögin.
Samningur Davids, sem er 24 ára gamall, rennur út í sumar og getur hann því farið á frjálsri sölu. David hefur raðað inn mörkum fyrir Lille, sem landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson leikur með, frá því hann gekk til liðs við franska félagið sumarið 2020.
Alls hefur David skorað 101 mark í 210 leikjum fyrir Lille, þar sem hann varð Frakklandsmeistari árið 2021.
David er auk þess markahæsti leikmaður Kanada frá upphafi með 31 mark í 59 A-landsleikjum.