Leikur eitt ár enn með Chelsea

Guro Reiten, til hægri, í leik með Chelsea gegn Real …
Guro Reiten, til hægri, í leik með Chelsea gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í síðasta mánuði. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur framlengt samninginn við norsku knattspyrnukonuna Guro Reiten um eitt ár, eða til sumarsins 2026.

Reiten, sem er þrítug og leikur sem kantmaður, hefur spilað með Chelsea frá árinu 2019 og skorað 35 mörk í 102 leikjum í ensku úrvalsdeildinni, og alls 54 mörk í 177 mótsleikjum.

Hún hefur verið í lykilhlutverki hjá Lundúnaliðinu sem hefur orðið enskur meistari fimm ár í röð og einnig unnið með því bikarkeppnina í þrígang.

Þá var hún í liði Chelsea sem lék úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu 2021.

Reiten, sem kom til Chelsea frá Lillestsröm, hefur skorað 21 mark í 97 landsleikjum fyrir Noreg og mætir væntanlega Íslandi tvisvar í Þjóðadeildinni í vor en þar eru Ísland og Noregur saman í riðli.

Í Noregi skoraði Reiten 87 mörk í 170 leikjum í úrvalsdeildinni áður en hún fór til Englands. Ferilinn hóf hún með uppeldisfélaginu Sunndal í C-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert