Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur ekki unnið sér inn fast sæti í byrjunarliði þýska liðsins Hertha Berlín síðan hann gekk í raðir félagsins frá OH Leuven í Belgíu í sumar.
Sóknarmaðurinn hefur aðeins sex sinnum verið í byrjunarliði Berlínarliðsins og enn ekki tekist að skora mark.
Þá hefur gengi liðsins verið undir væntingum því Hertha er í 12. sæti með 22 stig eftir 17 leiki. Þrátt fyrir það er uppaldi HK-ingurinn ekki af baki dottinn.
„Það dreymir alla í liðinu um að fara upp um deild. Við höfum ekki gefið þann draum upp á bátinn,“ sagði Jón Dagur í samtali við DPA frá æfingabúðum Herthu á Spáni.
„Við verðum að halda í jákvæðnina. Við vorum hins vegar ekki nægilega góðir fyrri hluta tímabilsins. Við verðum að laga það og þá er enn möguleiki á að fara upp,“ sagði Jón.
Hann viðurkenndi að það væri erfitt að bíða eftir fyrsta markinu hjá nýju liði í nýju landi. „Það er búið að vera mjög erfitt. Það kemur samt. Það er alltaf léttir að skora fyrsta markið,“ sagði landsliðsmaðurinn.
Hann var síðan spurður út í Eyjólf Sverrisson, goðsögn hjá Herthu Berlín, og Martin Hermannsson, sem leikur með körfuknattleiksfélaginu Alba Berlín.
„Ísland er svo lítið að allir þekkja alla,“ sagði Jón Dagur léttur.