Hafði aldrei séð mann deyja áður

Emmanuel Adebayor lék m.a. með Tottenham á farsælum ferli.
Emmanuel Adebayor lék m.a. með Tottenham á farsælum ferli. AFP

Emmanuel Adebayor, fyrrverandi framherji Arsenal, Tottenham, Manchester City og Real Madrid, var heppinn að sleppa lifandi þegar byssumenn skutu á liðsrútu landsliðs Tógó þegar það undirbjó sig fyrir Afríkumótið í Angóla 2010.

Tveir starfsmenn landsliðsins létust í árásinni en allir leikmenn liðsins komust lífs af. Adebayor hringdi í ólétta eiginkonu sína á meðan á árásinni stóð og stakk upp á nöfnum fyrir ófætt barnið.

„Ég stakk upp á Junior Emmanuel ef þetta yrði strákur og Princess Emmanuella ef þetta yrði stelpa. Ég þurfti að kasta símanum mínum frá mér áður en ég heyrði svarið hennar,“ sagði Adebayor við BBC Africa.

Eins og í kvikmynd

Í dag eru fimmtán ár frá árásinni, sem Adebayor man mjög vel eftir. „Það breyttist eitthvað innan í mér á þessum degi. Ég minni sjálfan mig á að njóta hvers augnabliks, því það gæti verið þitt síðasta,“ sagði hann.

„Þetta var eins og í kvikmynd. Maður sá ekki einu sinni augun á þeim. Þeir voru með hnífa, handsprengjur, AK47-riffla og skammbyssur. Fyrir árásina vorum við að grínast með að þeir litu út eins og ninjur,“ bætti Adebayor við.

Með skotsár á maganum

Stanislas Ocloo, aðstoðarmaður framherjans og fjölmiðlafulltrúi landsliðsins, lést í árásinni.

„Hann kvartaði yfir verkjum í maganum. Ég bað hann um að sýna styrk og minnti hann á að hann ætti fjölskyldu í Tógó. Þegar við mættum á spítalann sagði læknirinn að hann væri með tvö eða þrjú skotsár á maganum.

Þá gafst hann upp og lést. Ég hafði aldrei áður séð mann deyja. Það er erfitt að sjá einhvern loka augunum í síðasta skipti. Það er erfitt að trúa því þegar það gerist,“ sagði Adebayor enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert