Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins, gæti þurft að flytja frá Englandi til að fá nýtt starf sem knattspyrnustjóri.
Þetta sagði Teddy Sheringham, sem var einnig leikmaður United á sínum tíma, við Boyle Sports.
Rooney var rekinn frá B-deildarliðinu Plymouth á dögunum og hefur stjóraferillinn gengið illa síðan hann lagði skóna á hilluna árið 2021.
Hann var vinsæll hjá stuðningsmönnum Derby er hann stýrði liðinu frá 2020 til 2022, þrátt fyrir að hann hafi fallið úr B-deildinni og niður í C-deildina. Alls var 21 stig dregið af Derby tímabilið 2021/22 og því nær óvinnandi verk að halda liðinu uppi.
Hann flutti í kjölfarið til Washington D.C. og tók við D.C. United í Bandaríkjunum. Eftir slæmt gengi þar tók hann við Birmingham árið 2023 en var rekinn skömmu síðar eftir afleitt gengi. Gengið hjá Plymouth var lítið skárra og óvíst hvort Rooney fái fleiri tækifæri í heimalandinu.
„Maður spyr sig hvað hann gerir núna. Ég tók við starfi í D-deildinni og fékk ekki starf eftir það, því það gekk illa. Það vill enginn gefa þér tækifæri þegar illa gengur.
Það verður erfitt fyrir Rooney að fá nýtt starf eftir vandræðin í B-deildinni. Ef hann vill halda stjóraferlinum eftir gæti hann þurft að flytja úr landi og prófa eitthvað nýtt,“ sagði Sheringham.