Frederik Birk hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs danska knattspyrnufélagsins Bröndby en Freyr Alexandersson var á meðal þeirra sem höfðu verið orðaðir við stöðuna.
Bröndby sótti ekki vatnið yfir lækinn því Birk, sem er 35 ára gamall, var aðstoðarþjálfari liðsins og tók við því til bráðabirgða í desember eftir að félagið rak Jesper Sörensen.
Undir hans stjórn vann Bröndby sigur á AGF, 4:2, í bikarkeppninni en liðið er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar eftir 17 umferðir af 32, sex stigum á eftir FC Köbenhavn og Midtjylland sem eru í toppsætunum í vetrarfríinu.
Freyr hefur sjálfur mest verið orðaður við norsku félögin Brann og Molde síðustu daga, ásamt því að vera einn af mögulegum kandídötum sem næsti þjálfari karlalandsliðs Íslands.