Börsungarnir fá að spila

Dani Olmo fær tímabundið leyfi til að spila.
Dani Olmo fær tímabundið leyfi til að spila. AFP/Manuel Quintero

Spænsku knattspyrnumennirnir Dani Olmo og Pau Víctor hafa fengið tímabundið leyfi frá spænska íþróttaráðinu, CSD, til þess að spila áfram fyrir Barcelona. Spænska knattspyrnusambandið og spænska 1. deildin höfðu áður hafnað beiðni Börsunga um að skrá þá fyrir síðari hluta tímabilsins.

Barcelona hafði upphaflega aðeins skráð þá Olmo og Víctor, sem báðir voru keyptir síðasta sumar, fyrir fyrri hluta tímabilsins vegna fjárhagsvandræða félagsins. Af sömu ástæðu hafnaði spænska sambandið og spænska deildin leikmannaskráningu fyrir síðari hluta tímabilsins.

CSD steig inn og veitti Barcelona tímabundið leyfi til þess að skrá leikmennina tvo eftir að félagið áfrýjaði ákvörðun sambandsins og deildarinnar um að hafna leikmannaskráningum þeirra. Sú ákvörðun var tekin á þeim grundvelli að Börsungar gætu ekki fylgt reglum um launaþak deildarinnar.

Fá þeir tímabundið leyfi til þess að spila á meðan CSD ræður áfram ráðum sínum og vinnur að því að komast að endanlegri niðurstöðu í máli Barcelona gegn sambandinu og deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert