„Þetta félag er til skammar“

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Al-Orobah.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Al-Orobah. Ljósmynd/Al-Orobah

Velska knattspyrnufélagið The New Saints hefur kært sádiarabíska félagið Al-Orobah til Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, vegna kaupa síðarnefnda félagsins á sóknarmanninum Brad Young.

Young var seldur á 190.000 pund, tæplega 33 milljónir íslenskra króna, í september á síðasta ári en samkvæmt Mike Harris, stjórnarformanni TNS, hefur félagið ekki fengið krónu frá Al-Orobah, sem Jóhann Berg Guðmundsson leikur með.

Ná ekki sambandi við félagið

„Þetta félag er til skammar. Upphæðin hefur ekki verið greidd. Við höfum tilkynnt málið til FIFA. Við náum ekki einu sinni sambandi við félagið.

Því myndi ég segja við hvaða félag sem er að hugsa um að selja efnilegan leikmann til Sádi-Arabíu að stunda ekki viðskipti nema fá peninginn inn á bankabókina áður en leikmaðurinn fer,“ sagði Harris meðal annars við breska ríkisútvarpið

FIFA hefur staðfest að sambandinu hafi borist kvörtun frá TNS vegna málsins. Talsmaður TNS segir að FIFA muni taka málið formlega fyrir næstkomandi þriðjudag, 14. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert