Danska knattspyrnufélagið Horsens hefur gengið frá kaupum á íslenska unglingalandsliðsmanninum Galdri Guðmundssyni frá FC Köbenhavn.
Galdur, sem er 18 ára gamall, hefur verið í röðum FC Köbenhavn frá árinu 2022, þegar hann kom til félagsins frá Breiðabliki, og leikið með unglingaliðum félagsins.
Á heimasíðu Horsens kemur fram að hann hafi skrifað undir þriggja ára samning við félagið.
Hann náði að leika fimm leiki með Breiðabliki í úrvalsdeildinni árin 2021 og 2022 þrátt fyrir ungan aldur og þá skoraði hann glæsilegt mark fyrir Blika í bikarsigri gegn Val, 6:2, vorið 2022.
Galdur hefur leikið fjórtán leiki með yngri landsliðum Íslands og skorað fjögur mörk.
Horsens leikur í B-deildinni og er þar í fjórða sæti í vetrarfríinu, þegar lokið er 18 umferðum af 32. Keppni hefst á ný 23. febrúar.