Óvænt tap gegn botnliðinu

Leikmenn Monza fögnuðu óvæntum sigri í kvöld.
Leikmenn Monza fögnuðu óvæntum sigri í kvöld. AFP/Piero Cruciatti

Albert Guðmundsson og samherjar hans í Fiorentina töpuðu óvænt fyrir botnliðinu Monza, 2:1, í 20. umferð ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu á útivelli í kvöld.

Monza var aðeins með tíu stig fyrir leikinn, fjórum stigum á eftir næsta liði, og hafði unnið einn af fyrstu 19 leikjum sínum á tímabilinu. Nú er liðið aðeins stigi á eftir Venezia sem er næstneðst en vantar þó enn sex stig til að komast úr fallsæti.

Fiorentina er með 32 stig og missti af tækifæri til að fara upp fyrir Juventus og í fimmta sæti deildarinnar.

Patrick Ciurra kom Monza yfir í lok fyrri hálfleiks. Skömmu áður hafði verið dæmd vítaspyrna á Monza og Albert var tilbúinn til að fara á vítapunktinn en dómarinn hætti við eftir að hafa skoðað atvikið á skjá.

Daniel Maldini bætti við marki fyrir Monza á 63. mínútu en Lucas Beltran minnkaði muninn fyrir Fiorentina úr vítaspyrnu á 74. mínútu.

Albert lék fyrri hálfleikinn með Fiorentina en var þá skipt af velli.

Fiorentina hefur nú aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum og er að dragast aftur úr efstu liðum deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert