Skrifaði undir eftir miklar vangaveltur

Mikael Anderson.
Mikael Anderson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn og landsliðsmaðurinn Mikael Neville Anderson hefur framlengt samning sinn við danska úrvalsdeildarfélagið AGF.

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni en Mikael, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við danska félagið. 

Sóknarmaðurinn gekk til liðs við danska félagið árið 2021 og hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin tvö tímabil. Hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu undanfarna mánuði og hefur mikið verið fjallað um framtíð hans í dönskum fjölmiðlum.

Hann hefur skorað tvö mörk og lagt upp önnur fimm til viðbótar í 17 leikjum í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem AGF er í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig, fimm stigum minna en topplið Köbenhavn eftir sautján umferðir.

Alls á hann að baki 108 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 14 mörk og lagt upp önnur 14 til viðbótar. Þá á hann að baki 31 A-landsleik fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert