Real Madríd þurfti framlengingu

Endrick skoraði tvívegis í kvöld.
Endrick skoraði tvívegis í kvöld. AFP/Javier Soriano

Real Madríd lagði Celta Vigo að velli, 5:2, eftir framlengdan leik á Santiago Bernabéu í Madríd í 16-liða úrslitum spænska konungsbikarsins í kvöld.

Mbappé kom Real í forystu á 37. mínútu og Vinícíus tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks.

Jonathan Bamba velgdi Madrídingum undir uggum þegar hann minnkaði muninn fyrir Celta í 2:1 sjö mínútum fyrir leikslok.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma jafnaði Marcos Alonso svo metin fyrir Celta þegar hann skoraði úr vítaspyrnu og knúði þannig fram framlengingu.

Í framlengingunni var það varamaðurinn Endrick sem kom Madrídingum aftur í forystu eftir undirbúning annars tánings, varamannsins Arda Güler.

Varamaðurinn Federico Valverde bætti svo við fjórða markinu áður en Endrick skoraði annað mark sitt og fimmta mark Real Madríd.

Orri og félagar einnig áfram

Slíkt hið sama gerði Real Sociedad sem fékk Rayo Vallecano í heimsókn og vann 3:1.

Orri Steinn Óskarsson kom inn á sem varamaður á 82. mínútu hjá Real Sociedad þegar staðan var orðin 3:1 og heimamenn einum fleiri.

Pacha, leikmaður Rayo, fékk sitt annað gula spjald á 77. mínútu og Sergio Gómez skoraði stuttu síðar þriðja mark Real Sociedad.

Áður höfðu Mikel Oyarzabal og Jon Olasagasti skoraði fyrir heimamenn auk þess sem Óscar Trejo skoraði fyrir Rayo Vallecano.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert