Hákon Arnar Haraldsson lék allan leikinn með Lille þegar liðið tapaði naumlega fyrir Liverpool í 7. umferð Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Anfield í Liverpool í kvöld.
Leiknum lauk með 2:1-sigri Liverpool en það var Harvey Elliott sem skoraði sigurmark leiksins á 67. mínútu.
Mohamed Salah kom Liverpool yfir á 34. mínútu eftir frábæra stungusendingu Curtis Jones en Salah setti boltann snyrtilega framhjá Lucas Chevalier í marki Lille.
Aissa Mandi, bakvörður Lille, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 59. mínútu en það kom ekki að sök því Jonathan David jafnaði metin fyrir Lille þremur mínútum síðar.
David átti þá fast skot úr teignum eftir að varnarmenn Liverpool hefðu hent sér fyrir skot Hákons Arnars og boltinn söng í netinu.
Elliott tryggði Liverpool svo sigurinn með skoti utan teigs eftir hornspyrnu á 67. mínútu en boltinn hafði viðkomu í leikmanni Lille á leið sinni í netið.
Liverpool er með fullt hús stiga eða 21 stig í efsta sæti deildarinnar en Lille er með 13 stig í ellefta sætinu.
Úrslit kvöldsins í Meistaradeildinni:
Benfica – Barcelona 4:5
Atlético Madrid – Bayer Leverkusen 2:1
Bologna – Borussia Dortmund 2:1
Club Brugge – Juventus 0:0
Rauða stjarnan – PSV 2:3
Slovan Bratislava – Stuttgart 1:3