Verðlaunahafi á ólympíuleikum til liðs við Söru

Adriana da Silva fagnar marki í leik með Brasilíu í …
Adriana da Silva fagnar marki í leik með Brasilíu í vetur. AFP/Patrick Hamilton

Brasilíska knattspyrnukonan Adriana er komin til liðs við Söru Björk Gunnarsdóttur og samherja hennar í sádiarabíska liðinu Al Qadsiah.

Adriana er 28 ára gömul, leikur sem sóknarmaður og var í landsliði Brasilíu sem fékk silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar. Þar skoraði hún í óvæntum sigri á heimsmeisturum Spánverja, 4:2, í undanúrslitum keppninnar.

Það var hennar 15. mark í 64 landsleikjum fyrir Brasilíu. Undanfarin tvö ár hefur Adriana leikið með Orlando Pride í Bandaríkjunum en fram að því í heimalandi sínu.

Sara kom til Al Qadsiah frá Juventus síðasta sumar. Hún hefur leikið alla tólf leiki liðsins í deildinni í  vetur og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins með 6 mörk en Al Qadsiah er í fimmta sæti af tíu liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert