Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar sneri aftur í lið Santos, tæpum tólf árum eftir að hann yfirgaf uppeldisfélagið, í gærkvöldi þegar liðið gerði jafntefli við Botafogo, 1:1, í Paulista-keppninni í Brasilíu.
Neymar kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og þótti komast vel frá sínu.
„Ég elska Santos. Ég hef engin orð yfir það hvernig mér leið í kvöld þegar ég steig aftur inn á þennan völl. Ég þarf mínútur og leiki.
Ég er ekki 100 prósent ennþá. Ég bjóst ekki við því að hlaupa og rekja boltann sérlega mikið í kvöld. Ég held að mér muni líða betur eftir fjóra til fimm leiki,“ sagði Neymar við fréttamenn eftir leikinn í gærkvöldi.