Freyr um landsliðsþjálfarastarfið: „Þá hefði ég verið brjálaður“

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. Ljósmynd/Brann

​Freyr Alexandersson ætlar sér að gera norska knattspyrnufélagið Brann að Noregsmeisturum innan þriggja ára en hann tók við þjálfun liðsins þann 13. janúar.

Freyr, sem er 42 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning í Bergen sem gildir út keppnistímabilið 2027.

Íslenska þjálfaranum var sagt upp störfum hjá belgíska A-deildarfélaginu Kortrijk 17. desember og var því ekki lengi án starfs en hann bjargaði Kortrijk frá falli á ævintýralegan hátt á síðustu leiktíð.

Hann hefur einnig stýrt Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni á þjálfaraferlinum en hann kom liðinu upp í dönsku úrvalsdeildina tímabilið 2021-22 og bjargaði félaginu svo frá falli, einnig á ævintýralegan hátt, tímabilið 2022-23.

Góður fundur með KSÍ

Freyr var einn þriggja sem voru sterklega orðaðir við þjálfarastöðuna hjá íslenska karlalandsliðinu en Arnar Gunnlaugsson var að endingu ráðinn í starfið.

„Ég átti mjög góðan fund með forráðamönnum KSÍ og eðlilega tóku þeir sér góðan tíma í ráðningarferlið. Því miður vann sá tími ekki með mér því ég þurfti sjálfur að setja ákveðna pressu á Knattspyrnusambandið vegna viðræðna minna í Noregi. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að sú tímapressa sem ég setti á sambandið myndi ekki vinna með mér og yrði líklegast til þess að mér yrði ekki boðið starfið en það er eins og það er.

Ég var þá kominn með starfstilboð frá Brann sem ég var mjög ánægður með. Ég stóð við allt mín megin og fór með það að leiðarljósi, inn í viðræðurnar við KSÍ, að ég myndi og gæti staðið við allt mitt en ég varð að setja ákveðinn tímaramma. Ég valdi að fara til Bergen og er ánægður með mitt val og forráðamenn KSÍ eru ánægðir með sitt val. Þetta fór allt eins og það átti að fara.“

Löngunin komin á ís

En var Freyr ekkert svekktur að fá ekki landsliðsþjálfarastarfið og sér hann fyrir sér að þjálfa landsliðið þegar fram líða stundir?

„Ef mér hefði ekki staðið til boða að taka við Brann, eða einhverju öðru liði, þá hefði ég verið brjálaður. Eins og ég sagði áðan er ég mjög sáttur með niðurstöðuna og glaður fyrir hönd Arnars. Þetta var augljóslega starf sem hann langaði mikið í og það er ekkert svekkelsi mín megin.

Eins og staðan er í dag veit ég ekki hvort ég muni taka við landsliðinu úr því sem komið er. Ég ætla mér að vera í Noregi eins lengi og ég get og njóta þess. Ég finn það hjá mér núna að löngun mín til að þjálfa landsliðið er aðeins komin á ís. Ég mun hins vegar alltaf styðja landsliðið til dáða og óska því alls hins besta í komandi verkefnum.“

Ítarlegt viðtal við Frey Alexandersson má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert