Joao Félix var á skotskónum hjá AC Milan í sínum fyrsta leik fyrir liðið þegar það vann Roma 3:1 í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöldi.
Félix gekk til liðs við AC Milan að láni frá Chelsea fyrr í vikunni og kom inn á sem varamaður í stöðunni 2:1 í gærkvöldi.
Innsiglaði hann sigurinn með þriðja marki heimamanna eftir undirbúning Santiago Giménez, sem var keyptur frá Feyenoord fyrir skemmstu.
Tammy Abraham hafði áður skorað tvívegis fyrir AC Milan gegn sínum gömlu félögum og Artem Dovbyk minnkað muninn fyrir Roma.