Draumurinn að rætast

Hlín Eiríksdóttir er spennt fyrir því að reyna fyrir sér …
Hlín Eiríksdóttir er spennt fyrir því að reyna fyrir sér í ensku deildinni með Leicester City, sem þarf sárlega á fleiri mörkum að halda. Ljósmynd/Leicester

Hlín Eiríksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var í síðasta mánuði keypt til enska félagsins Leicester City frá sænska félaginu Kristianstad. Skrifaði hún undir tveggja og hálfs árs samning hjá Leicester, sem leikur í ensku A-deildinni.

„Það er geggjað, þetta er draumur að rætast. Ég held að það sé draumur hjá mjög mörgu ungu fótboltafólki að spila í ensku úrvalsdeildinni. Ég er mjög sátt við þetta og hlakka til að sýna mig og sanna í þessari deild.

Það er búinn að vera draumur minn að komast í þessa deild og ég hef alveg hugsað um hvort það færi ekki að verða tímabært að taka næsta skref frá Svíþjóð. Þetta var sú deild sem mig langaði langmest að spila í,“ sagði Hlín, sem er 24 ára gömul, í samtali við Morgunblaðið.

Næstmarkahæst í Svíþjóð

Hún er sóknarmaður sem skoraði 15 mörk í 25 leikjum fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Var Hlín þá næstmarkahæst allra í deildinni og skoraði 36 mörk á þremur síðustu árunum í Svíþjóð. Hún samdi við Leicester í síðustu viku, er því enn að koma sér fyrir en líst afar vel á það sem hún hefur séð.

„Mér líst mjög vel á. Ég er ennþá að komast svolítið inn í hlutina. Ég er ennþá á hóteli og bara búin að spila tíu mínútur í fyrsta leik. Ég er hægt og rólega að komast inn í allt.

Þetta er risastórt félag og alveg toppaðstæður, sem er nokkuð sem ég er ekki vön. Starfsfólkið í kringum liðið og allt þetta er alveg á hæsta stigi. Það er ekkert sem maður getur kvartað yfir,“ sagði Hlín, annar Íslendingurinn sem nú er á mála hjá liði í deildinni en Dagný Brynjarsdóttir leikur með West Ham.

Viðtalið við Hlín má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert