Spænska knattspyrnumanninum Rodri hefur verið bætt við í leikmannahóp Manchester City fyrir útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir að hann glími við alvarleg hnémeiðsli.
Rodri, sem hlaut Gullboltann sem besti knattspyrnumaður heims á síðasta ári, sleit krossband í hné í upphafi tímabilsins.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man. City, hefur látið hafa það eftir sér að vonir standi til að Rodri geti snúið aftur á völlinn áður en tímabilið er úti.
Tekur það íþróttafólk alla jafna um níu mánuði að jafna sig á krossbandsslitum og því er smávægilegur möguleiki á því að Guardiola fái ósk sína uppfyllta.