Venezia fékk Roma í heimsókn í hádegisleik dagsins í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag og endaði leikurinn með sigri Roma, 1:0.
Það var Argentínumaðurinn knái Paulo Dybala sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 57. mínútu.
Mikael Egill Ellertsson byrjaði inná í liði Venezia en var tekinn af velli á 71. mínútu. Bjarki Steinn Bjarkason leysti hann þá af hólmi.
Venezia er eftir leikinn í 19. og næst neðsta sæti deildarinnar með 16 stig, fimm stigum frá öruggu sæti. Roma situr hinsvegar í 9. sætinu með 34 stig, átta stigum frá sjötta sætinu sem gefur sæti í Sambandsdeild Evrópu á næsta tímabili.