Jónatan semur við Norrköping

Jónatan Guðni Arnarsson hefur gengið til liðs við Norrköping.
Jónatan Guðni Arnarsson hefur gengið til liðs við Norrköping. Ljósmynd/Norrköping

Jónatan Guðni Arnarsson hefur skrifað undir fjögurra ára samning við sænska félagið Norrköping en liðið leikur í efstu deild í sænska fótboltanum.

Jónatan hefur verið keyptur til Norrköping frá uppeldisfélagi sínu Fjölni. Þar hefur hann komið inn í meistaraflokkinn á undanförnum tveimur árum og skorað tvö mörk í 20 leikjum Grafarvogsliðsins í 1. deildinni. Þá á hann að baki níu leiki með yngri landsliðum Íslands.

„Jónatan fór í haust tvívegis til reynslu hjá sænska liðinu og stóð sig frábærlega vel og því ekki furða að þeir hafi nælt sér í þennan magnaða leikann og frábæra dreng. Til hamingju Jónatan með nýju vegferðina og til hamingju með 18 ára afmælisdaginn,“ segir í tilkynningu Fjölnis en Jónatan fagnar einmitt 18 ára afmæli sínu í dag.

Jónatan verður þriðji Íslendingurinn á mála hjá Norrköping en fyrir eru þar þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson. Þá er Magni Fannberg yfirmaður íþróttamála hjá Norrköping.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert