Verð ábyggilega drepinn ef þú birtir það!

Magnús Trygvason Eliassen trommuleikari liggur yfir leikkerfum knattspyrnuliða.
Magnús Trygvason Eliassen trommuleikari liggur yfir leikkerfum knattspyrnuliða. Mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég elska að horfa á fótbolta,“ upplýsti Magnús Trygvason Eliassen trommuleikari í ADHD og fleiri böndum í miðju samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um tónlist. Samtalið fór að vonum óvænt og skyndilega að snúast um fótbolta.

– Er það þá hobbíið þitt?

„Konan mín myndi segja að það væri meira en hobbí. Þetta er á svona trúarbragðaleveli, ég geng til dæmis mjög langt í því að greina leikkerfi liða.“

 – Erum við að tala um íslenskan eða erlendan bolta?

„Ég æfði með Fylki þegar ég var yngri og er Fylkismaður en hef dottið aðeins út úr íslenska boltanum. Þetta er voða mikið enski og spænski boltinn. Ég held með Liverpool en hef gegnum árin, eins undarlega og það hljómar, líka haft gaman af því að horfa á Manchester United, sérstaklega þegar þeir voru að spila vel, sem er reyndar býsna langt síðan. Þá hef ég haft mjög gaman af öllum liðum Peps Guardiolas. Ég verð ábyggilega drepinn ef þú birtir það!“

Magnús kann að meta Pep Guardiola, þrátt fyrir að hann …
Magnús kann að meta Pep Guardiola, þrátt fyrir að hann sé í vandræðum akkúrat núna. AFP/Glyn Kirk

Hann heldur áfram. „Annars er uppáhaldsaukaliðið mitt um þessar mundir hið stórmerkilega lið Bournemouth sem vill spila ótrúlega skemmtilegan fótbolta, þrátt fyrir að vera með 12 eða 15 menn á meiðslalistanum. Þetta er svipaður bolti og Liverpool spilaði þangað til nýi þjálfarinn tók við.“

Aðeins öðruvísi fótbolti

– Ertu ekki ánægður með Arne Slot? Þið eruð með pálmann í höndunum í deildinni.

„Jú, ég er feikilega ánægður með stöðuna. En þetta er aðeins öðruvísi fótbolti. Hollendingurinn vill hægja á leiknum, þegar það á við, sem Klopp vildi alls ekki gera. Hann vildi spila hratt – alltaf.“

Arne Slot er með Liverpool á grenjandi siglingu.
Arne Slot er með Liverpool á grenjandi siglingu. AFP/Oli Scarff

– Hér er trommuleikarinn farinn að tala um takt og hraðabreytingar í fótboltaleikjum. Er þá sitthvað líkt með þessu tvennu?

„Ef við horfum mjög djúpt á það þá eru mikil líkindi með trommuleik og fótbolta. Annars er það bara eins og með allt sem mannskepnan gerir, þetta eru allt einhver leikkerfi sem við förum eftir, meðvitað eða ómeðvitað. Samt held ég að þjálfari sem ætlaði að taka að sér að þjálfa okkur í ADHD fengi mjög líklega fljótt taugaáfall. Við erum aðeins of mikil villidýr til að láta stýra okkur.“

Nánar er rætt við Magnús í Sunnudagsblaðinu. Og þá mest um tónlist. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert