Mikil meiðsli herja á fótboltalið Real Madrid frá Spáni þessa dagana en Real Madrid heimsækir Englandsmeistara Manchester City í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Manchester á morgun.
Þeir Dani Carvajal og Éder Militao eru báðir með slitin krossbönd og leika ekki meira með liðinu á komandi keppnistímabili.
David Alaba ferðaðist ekki með liðinu til Manchester vegna meiðsla og þá er Antonio Rüdiger tognaður aftan í læri. Lucas Vázquez er einnig fjarverandi vegna meiðsla og varnarlína Real Madrid verður því ansi þunnskipuð gegn Manchester City.
Spænski miðillinn Marca gerir ráð fyrir því að Fran Garcia og Aurélien Tchouaméni verði miðverðir á morgun en sá síðarnefndi er miðjumaður að upplagi.
Síðari leikur liðanna fer fram í Madríd á miðvikudaginn í næstu viku og vonast Carlo Ancelotti, stjóri liðsins, til þess að bæði Alaba og Rüdiger geti tekið þátt í síðari leiknum.