Ekkert áfengi á HM 2034

Stuðningsmenn geta ekki vætt kverkarnar með áfengum drykkjum á HM …
Stuðningsmenn geta ekki vætt kverkarnar með áfengum drykkjum á HM í Sádi-Arabíu. Ljósmynd/Colourbox

Ekkert áfengi verður leyft á HM 2034 í knattspyrnu karla sem fer fram í Sádi-Arabíu. Þetta hefur sendiherra Sádi-Arabíu í Bretlandi staðfest.

Í samtali við útvarpsstöðina LBC sagði prinsinn Khalid bin Bandar Al Saud að áfengi yrði hvergi selt á meðan mótið stæði yfir, þar með talið á hótelum.

„Í augnablikinu leyfum við ekki áfengi. Það er hægt að skemmta sér vel án áfengis. Það er ekki 100 prósent nauðsynlegt og ef þú vilt drekka eftir að þú ferð þá er þér það velkomið.

En í augnablikinu erum við ekki með áfengi,“ sagði Al Saud og var spurður hvort áhangendur gætu þá neytt áfengis á hótelherbergjum sínum líkt og var hægt á HM 2022 í Katar.

„Nei, það er ekkert áfengi yfir höfuð. Eins og veðrið okkar er um þurrt land að ræða. Það eru allir með sína menningu.

Við munum glöð koma til móts við fólk innan marka menningar okkar en við viljum ekki breyta menningu okkar fyrir aðra,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert