Knattspyrnukonan Alexandra Jóhannsdóttir er spennt fyrir komandi keppnistímabili í sænsku úrvalsdeildinni en hún gekk til liðs við Íslendingalið Kristianstad á dögunum frá Fiorentina á Ítalíu.
Alexandra, sem er 24 ára gömul, skrifaði undir tveggja ára samning við Kristianstad en hún er uppalin hjá Haukum í Hafnarfirði.
Hún gekk til liðs við Breiðablik í október árið 2017 og varð tvívegis Íslandsmeistari á tíma sínum í Kópavoginum og einu sinni bikarmeistari.
Miðjumaðurinn hélt út í atvinnumennsku í janúar árið 2021 þegar hún samdi við Eintracht Frankfurt en þaðan lá leiðin til Fiorentina árið 2022.
„Lífið í Svíþjóð er fínt og þessir fyrstu dagar hérna hafa verið skemmtilegir,“ sagði Alexandra í samtali við mbl.is.
Elísabet Gunnarsdóttir stýrði Kristianstad á árunum 2009 til 2023 og gerði liðið að einu sterkasta kvennaliði Svíþjóðar á tíma sínum þar.
„Elísabet er svakaleg goðsögn hérna,“ sagði Alexandra þegar hún var spurð út í íslenska þjálfarann.
„Ég held að hún komi enn þá eitthvað að þjálfun yngri flokka hérna. Hún dýrkar klúbbinn og það dýrka hana allir hérna. Hún gerði ofboðslega mikið fyrir félagið,“ bætti Alexandra við í samtali við mbl.is.