Útilokaði Arnór og stökk frá borði

John Eustace þegar hann stýrði Birmingham City.
John Eustace þegar hann stýrði Birmingham City. Ljósmynd/Birmingham City

John Eustace hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Derby County, sem leikur í ensku B-deildinni. Kemur hann frá Blackburn Rovers, þar sem eitt af síðustu verkum hans var að taka Arnór Sigurðsson af leikmannalistanum fyrir síðari hluta tímabilsins.

Það gerði Eustace í síðustu viku, sem þýðir að Arnór getur ekkert spilað með Blackburn í B-deildinni það sem eftir lifir tímabils.

Eustace fékk leyfi til að ræða við Derby fyrr í vikunni og tilkynnti félagið í dag að hann hafi skrifað undir samning sem gildir til sumarsins 2028.

Ákvörðun Eustace vekur nokkra athygli þar sem Blackburn er í harðri baráttu um að komast upp í úrvalsdeildina, er í fimmta sæti B-deildarinnar sem er umspilssæti.

Á meðan er Derby í harðri fallbaráttu í 21. sæti af 24 liðum og einungis fyrir ofan fallsvæðið á markatölu. Eustace lauk leikmannaferli sínum hjá Derby fyrir áratug og lék 62 mótsleiki fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert