Bellingham gæti fengið 12 leikja bann

Jude Bellingham furðulostinn.
Jude Bellingham furðulostinn. AFP/Ander Gillenea

Jude Bellingham, ein af stjörnum spænska knattspyrnustórveldisins Real Madrid, gæti fengið allt að tólf leikja bann fyrir að hafa öskrað á dómara. 

Bellingham fékk beint rautt spjald fyrir að blóta í áttina að dómaranum José Luis Munuera Montero í jafntefli liðsins gegn Osasuna, 1:1, á útivelli síðastliðinn laugardag.

Í skýrslu dómarans kemur fram að Bellingham hafi sagt dómaranum að fara til helvítis, en Carlo Ancelotti, stjóri Madridarliðsins, sagði eftir leik að Bellingham hafi frekar verið að blóta út í loftið. 

Í agareglum spænska knattspyrnusambandsins segir að ef leikmaður gerist sekur um að ávarpa dómara eða aðra starfsmenn með móðgandi hætti verði honum refsað með fjögurra til tólf leikja banni. 

Bellingham myndi missa af öllum nema síðustu tveimur leikjum Real-liðsins fengi hann tólf leikja bann. Þó verður að teljast afar ólíklegt að svo verði, en ekki er enn ljóst hver framvinda málsins verður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert