Bayern München frá Þýskalandi er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir jafntefli gegn Celtic frá Skotlandi á heimavelli í kvöld, 1:1.
Bayern vann fyrri leikinn 2:1 og einvígið samanlagt 3:2. Varamaðurinn Alphonso Davies var hetja þýska stórliðsins því hann skoraði sigurmarkið í einvíginu á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Þjóðverjinn Nicolas-Gerrit Kühn kom Celtic yfir í heimalandinu og stefndi allt í framlengingu þegar hinn kanadíski Davies kom Bayern til bjargar. Bayern mætir Atlético Madríd eða ríkjandi Þýskalandsmeisturum Leverkusen í næstu umferð.
Það var einnig dramatík þegar Benfica frá Portúgal tryggði sig áfram gegn Mónakó. Urðu lokatölur í Benfica í kvöld 3:3 og vann portúgalska liðið einvígið 4:3.
Kerem Aktürkoglu kom Benfica yfir á 22. mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Takumi Minamino og var staðan í hálfleik 1:1. Eliesse Ben Seghir kom Mónakó í 2:1 á 51. mínútu.
Vangelis Pavlidis jafnaði á 76. mínútu og kom Benfica yfir í einvíginu. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði George Ilenikhena metin í einvíginu. Stefndi í framlengingu þegar Orkun Kökcu skoraði sigurmark Benfica á 84. mínútu. Benfica mætir Liverpool eða Barcelona.
Þá er belgíska liðið Club Brugge komið áfram eftir sigur á Atalanta frá Ítalíu á útivelli, 3:1. Brugge vann einvígið samanlagt 5:2. Chemsdine Talbi gerði tvö mörk fyrir Brugge og Ferran Jutglá skoraði einnig. Ademola Lookman skoraði mark Atalanta er hann minnkaði muninn í 3:1. Club Brugge mætir Lille eða Aston Villa.