Knattspyrnumaðurinn Eggert Aron Guðmundsson er spenntur fyrir komandi tímum með sínu nýja félagsliði Brann í Noregi.
Sóknarmaðurinn, sem er 21 árs gamall, gekk til liðs við norska félagið frá Elfsborg í Svíþjóð á dögunum og skrifaði undir þriggja ára samning í Noregi.
Freyr Alexandersson er þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins sem hefur hafnað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil.
Eggert Aron hélt út í atvinnumennsku í janúar á síðasta ári eftir frábært tímabil með uppeldisfélagi sínu Stjörnunni í Bestu deildinni þar sem hann skoraði tólf mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni en hann var valinn besti ungi leikmaður deildarinnar tímabilið 2023.
Alls á hann að baki 65 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 17 mörk. Þá á hann að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland og 21 landsleik fyrir yngri landsliðin.
„Ég þurfti á þessu að halda og ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu,“ sagði Eggert Aron í samtali við Morgunblaðið.
Meiðsli settu strik í reikninginn hjá Eggerti í Svíþjóð og lék hann aðeins sjö deildarleiki með Elfsborg þar sem hann skoraði eitt mark. Hann var ósáttur með spiltíma sinn hjá félaginu og greindi frá því í viðtali við mbl.is í október en viðtalið vakti mikla athygli í Svíþjóð.
„Þetta er klárlega búið að vera mjög erfitt en á sama tíma mjög gaman og lærdómsríkt. Það er stundum talað um það að atvinnumennskan sé alls ekki fyrir alla en ég mæli algjörlega með því að allir prófi þetta á einhverjum tímapunkti. Ég meiðist mjög fljótlega eftir að ég kem út og næ þar af leiðandi ekki að spila fyrir þjálfarann sem fékk mig til félagsins.
Það kemur nýr þjálfari inn í þetta og þá smellur allt. Það er frábær taktur í liðinu og við erum að vinna alla leiki. Það tók mig smátíma að jafna mig á meiðslunum sem voru að plaga mig og kannski var ég ekki í nægilega góðri æfingu til þess að spila. Ég var samt að æfa með liðinu og fannst ég eiga að spila. Ég fór í viðtal þar sem ég var of hreinskilinn en ég og þjálfarinn erum góðir í dag, það eru engin vandamál á milli okkar og við kvöddum sáttir.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.