Ensku liðin voru misheppin með drátt þegar dregið var í 16-liða úrslit Meistaradeildar karla í fótbolta í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss í dag.
Liverpool, topplið deildarinnar og ensku úrvalsdeildarinnar, mætir Frakklandsmeisturum París SG, Arsenal mætir PSV frá Hollandi og Aston Villa mætir Club Brugge frá Belgíu.
Hákon Arnar Haraldsson og liðsfélagar hans í Lille mæta Borussia Dortmund frá Þýskalandi og þá verða tveir nágrannaslagir í sextán liða úrslitunum: Bayern München og Bayer Leverkusen og Real Madrid og Atlético Madrid.
Þá var einnig dregið í átta liða úrslit keppninnar og undanúrslitin en takist Liverpool að vinna sína viðureign, sem og Aston Villa, þá munu liðin mætast í átta liða úrslitunum.
Hákon Arnar og liðsfélagar hans í Lille mæta annaðhvort Benfica eða Barcelona og ef Arsenal tekst að leggja PSV að velli mætir liðið annaðhvort Real Madrid eða Atlético Madrid.
Leikirnir í sextán liða úrslitum keppninnar fara fram dagana 4.-5. mars og 11.-12. mars en leikið verður heima og að heiman, líkt og í átta liða úrslitunum og undanúrslitum keppninnar.
Leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram 8.-9. apríl og 15.-16. apríl og undanúrslitin dagana 29.-30. apríl og 6.-7. maí.
Úrslitaleikurinn fer svo fram þann 31. maí á Allianz Arena, heimavelli Bayern München, í Þýskalandi.
Drátturinn í 16-liða úrslitin:
Club Brugge – Aston Villa
Borussia Dortmund – Lille
Real Madrid – Atlético Madrid
Bayern München – Bayer Leverkusen
PSV – Arsenal
Feyenoord – Inter Mílanó
París SG – Liverpool
Benfica – Barcelona
Drátturinn í 8-liða úrslitin:
París SG/Liverpool – Club Brugge/Aston Villa
PSV/Arsenal – Real Madrid/Atlético Madrid
Benfica/Barcelona – Borussia Dortmund/Lille
Bayern München/Bayer Leverkusen – Feyenoord/Inter Mílanó
Drátturinn í undanúrslitin:
PSV/Arsenal/Real Madrid/Atlético Madrid – París SG/Liverpool – Club Brugge/Aston Villa
Benfica/Barcelona/Dortmund/Lille – Bayern/Leverkusen/Feyenoord/Inter