Hákon Arnar Haraldsson var aðalmaðurinn í sigri Lille á Mónakó í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1 sigri.
Fyrra mark Hákons kom á 22. mínútu þegar hann skoraði með góðu skoti innan úr vítateig Mónakó. Hann bætti síðan við öðru marki á 42. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi.
Takumi Minamino, fyrrum leikmaður Liverpool, minnkaði muninn fyrir Mónakó með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Nær komust leikmenn Mónakó ekki og endaði leikurinn með sigri Lille þar sem Hákon Arnar var valinn maður leiksins.
Eftir leikinn er Lille í þriðja sæti deildarinnar með 41 stig en Mónakó er í 5. sætinu með 40 stig. Hörð barátta er um Meistaradeildarsæti en Lille, Nice og Mónakó munu berjast til loka tímabilsins.