Knattspyrnudómarinn Marco Ortíz á yfir höfði sér allt að sex mánaða bann fyrir samskipti sín við Lionel Messi eftir leik Inter Miami og Kansas City í Meistarabikar Norður- og Mið-Ameríku síðastliðið fimmtudagskvöld.
Messi skoraði sigurmark Inter Miami í 1:0-sigri í 17 gráðu frosti. Eftir leik bað Ortíz argentínska snillinginn um eiginhandaráritun.
Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku tók illa í athæfi dómarans. Við rannsókn málsins sagði Ortíz að hann vildi gefa fötluðum frænda sínum áritunina.
ESPN segir að forráðamenn knattspyrnusambandsins hafi gefið lítið fyrir útskýringuna og telja samskiptin á milli dómarans og leikmannsins óeðlileg. Hann eigi því yfir sér þriggja til sex mánaða bann.