Forráðamenn skoska knattspyrnufélagsins Rangers hafa rekið Belgann Philippe Clement úr starfi eftir 16 mánuði við stjórnvölinn.
Rangers er 13 stigum á eftir erkifjendunum í Celtic á toppnum. Þá hefur liðið tapað tveimur heimaleikjum í röð og féll afar óvænt úr leik gegn Queen's Park úr B-deildinni í skoska bikarnum.
Barry Ferguson verður væntanlega ráðinn til bráðabirgða út tímabilið. Ferguson lék tæplega 250 leiki fyrir Rangers á sínum tíma og var fyrirliði þess í sjö ár.