Sakar sambandið um spillingu eftir tap

Roberto De Zerbi var vægast sagt ósáttur eftir leik.
Roberto De Zerbi var vægast sagt ósáttur eftir leik. AFP/Arnaud Finistre

Marseille mátti þola tap gegn Auxerre í efstu deild franska fótboltans í gærkvöldi, 3:0. Fyrir vikið er liðið 13 stigum á eftir toppliði París SG en Marseille er í öðru sæti deildarinnar.

Knattspyrnustjórinn Roberto De Zerbi var vægast sagt ósáttur eftir leik en Auxerre fékk víti á 77. mínútu og Derek Conelius fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt skömmu á undan.

„Ég ætla aldrei að þjálfa í Frakklandi aftur. Ég trúi varla að Frakkar séu sáttir við svona dómgæslu. Þetta var skandall í kvöld,“ sagði De Zerbi á blaðamannafundi.

Forsetinn Pablo Longoria gekk enn lengra þegar hann ræddi við La Provence eftir leik.

„Það var búið að ákveða þetta fyrir leik. Þetta er augljós spilling. Fjórir evrópskir dómarar hafa sagt mér að það var búið að ákveða að dæma víti á okkur í kvöld. 

Mesta hneisan er samt rauða spjaldið. Franska deildin er ömurleg keppni og ef Ofurdeildin verður að veruleika verðum við snöggir að yfirgefa þessa deild,“ sagði Longoria.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert