Mexíkóski knattspyrnudómarinn Marco Antonio Ortiz hefur verið úrskurðaður í sex mánaða bann í keppnum á vegum knattspyrnusambands Norður- og Mið-Ameríku eftir að hann bað Lionel Messi um eiginhandaráritun eftir leik sem Ortiz dæmdi.
Ortiz vék sér að Messi eftir 1:0-sigur liðs hans Inter Miami á Sporting Kansas City í meistarabikar sambandsins fyrir viku síðan og bað um eiginhandaráritun fyrir fjölskyldumeðlim með sérþarfir að því er ESPN greinir frá.
Þar kemur fram að bannið nái ekki til heimalands Ortiz, sem er því frjálst að dæma áfram í efstu deild Mexíkó.
Í tilkynningu frá knattspyrnusambandi Norður- og Mið-Ameríku segir að hegðunin sem Ortiz hafi sýnt samræmist ekki gildum dómara hjá sambandinu og að hann hafi gengist við mistökum sínum og beðist afsökunar.