Danski knattspyrnumaðurinn Andreas Christensen, leikmaður Barcelona, hefur hafið æfingar að nýju með liðinu eftir að hafa einungis spilað einn leik á yfirstandandi tímabili.
Christensen kom við sögu í fyrstu umferð spænsku 1. deildarinnar í ágúst en varð svo fyrir meiðslum á hásin.
Hann sneri aftur í síðasta mánuði og sat á varamannabekk Börsunga í tveimur leikjum en varð svo fyrir vöðvameiðslum.
Í tilkynningu frá Barcelona segir að Christensen hafi nú æft með liðinu án vandkvæða undanfarna daga og því fengið grænt ljós frá læknateymi félagsins að spila með því á nýjan leik.