„Hvernig getur „pabbi“ minn verið rasisti?“

Didier Drogba og José Mourinho unnu saman hjá Chelsea.
Didier Drogba og José Mourinho unnu saman hjá Chelsea. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Didier Drogba hefur komið knattspyrnustjóranum José Mourinho til varnar eftir að sá síðarnefndi var sakaður um kynþáttaníð eftir leik Galatasaray og Fenerbahce í tyrknesku deildinni um helgina.

Eft­ir leik á blaðamanna­fundi sagði Mour­in­ho, stjóri Fenerbahce, að leik­menn Galatas­aray hefðu hoppað um eins og apar á vara­manna­bekkn­um meðan á leik stóð.

Þá sagði hann að það hefði verið hræðilegt ef tyrk­nesk­ur dóm­ari hefði dæmt leik­inn en Slav­ko Vincic frá Slóven­íu var feng­inn til að dæma leik­inn. Galatasaray fordæmdi þessi ummæli Mourinhos.

Drogba, sem lék lengi undir stjórn Mourinhos hjá Chelsea, lék síðar á ferlinum með Galatasaray og sagði það af og frá að Portúgalinn væri rasisti.

„Kæra Galatasaray. Þið vitið hversu stoltur ég var af því að klæðast gulu og rauðu treyjunni og hve vænt mér þykir um sigursælasta félag Tyrklands.

Treystið mér þegar ég segi ykkur að ég hef þekkt José í 25 ár og að hann er ekki rasisti og að sagan (forn og nýleg) sannar það. Hvernig getur “pabbi” minn verið rasisti? Í alvöru strákar,“ skrifaði Drogba meðal annars á X-aðgangi sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert