Rauða spjaldið var strikað út

Antony kann vel við sig í búningi Real Betis.
Antony kann vel við sig í búningi Real Betis. AFP/Cristina Quicler

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Antony, sem nú er í láni hjá Real Betis frá Manchester United, slapp við leikbann þrátt fyrir að hafa fengið rauða spjaldið í leik í spænsku 1. deildinni á sunnudaginn.

Antony var rekinn af velli í leik gegn Getafe, fékk beint rautt spjald fyrir meint brot á Juan Iglesias, leikmanni Getafe, í uppbótartíma leiksins.

Við nánari skoðun kom í ljós að ekki var um brot að ræða og spjaldið var fellt niður. Antony getur þar með spilað gegn Real Madrid í 1. deildinni á laugardaginn.

Antony hefur farið mjög vel af stað með Real Betis, eftir erfiða tíma hjá Manchester United, en hann hefur þegar skorað tvö mörk og lagt upp önnur tvö í fjórum leikjum með spænska liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert