Jørgen Isnes, þjálfari Loga Tómassonar hjá norska knattspyrnuliðinu Strømsgodset, er orðinn þreyttur á ummælum Freys Alexanderssonar þjálfara Brann um íslenska bakvörðinn.
Freyr hefur verið ófeiminn við að segja norskum fjölmiðlum að hann hafi áhuga á að fá Loga í sitt lið og gaf það í skyn að Logi vildi skipta yfir til Brann. Isnes er ekki skemmt. „Það er talað of mikið í Brann,“ sagði Isnes í hlaðvarpi dagblaðsins VG í Noregi.
„Þeir tala of mikið um hversu spenntir þeir eru fyrir Loga og að þeir ætli að kaupa hann. Við höfum ekki fengið neitt tilboð. Hann er okkar leikmaður og við erum ánægðir með hann. Það er mjög skrítið að segja svona hluti og gera síðan ekkert í þeim,“ bætti Isnes við.
„Við vitum að það eru fleiri félög þarna úti en við ætlum ekki að selja landsliðsbakvörð ódýrt út af svona ummælum,“ sagði hann. Isnes er sérstaklega óhress með að Freyr gaf það í skyn að Logi vildi spila undir hans stjórn.
„Það er siðferðislega rangt. Hann er leikmaðurinn okkar. Þetta væri eins og Arne Slot myndi segja að leikmenn Feyenoord vilji spila fyrir sig. Ég skil að Freyr sé örugglega vel séður hjá ykkur fjölmiðlamönnum en við erum að tala um leikmann sem við eigum. Það þarf að gera eitthvað í þessu,“ sagði Isnes.