Neituðu að taka í höndina á meintum rasista

Milutin Osmajic fagnar marki sínu fyrir framan stuðningsmenn Burnley í …
Milutin Osmajic fagnar marki sínu fyrir framan stuðningsmenn Burnley í dag. AFP/Paul Ellis

Preston North End og Burnley eigast nú við í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta en leikið er á heimavelli Preston, Deepdale vellinum.

Fyrir leikinn stilltu leikmenn sér upp fyrir framan áhorfendur og tókust síðan í hendur eins og venjan er. Liðsmenn Burnley neituðu hinsvegar að taka í höndina á Milutin Osmajic, framherja Preston. Ástæðan er sú að Hannibal Mejri, leikmaður Burnley, hefur sakað Osmajic um rasisma í deildarleik liðanna fyrir hálfum mánuði síðan.

Osmajic var síðastur í röð leikmanna Preston sem gengu á línuna og tóku í hendurnar á leikmönnum Burnley fyrir leikinn. Eftir að hafa verið hundsaður af þremur leikmönnum Burnley, þá dróg Osmajic hendina til baka og gekk á eftir liðsfélögum sínum.

Svartfellingurinn skoraði síðan annað mark Preston í fyrri hálfleiknum og fagnaði ógurlega fyrir framan stuðningsmenn Burnley, þeim til lítillar ánægju.

Scott Parker, knattspyrnustjóri Burnley, ákvað að skilja Hannibal Mejri eftir fyrir utan hóp í leiknum í dag og taldi hann sig verða að gera það til að verja leikmanninn.

„Ég hefði getað valið hann í hópinn í dag og það veikir okkur að hafa hann ekki hér en ég varð að taka ákvörðun til að verja hann. Hann er ungur strákur sem upplifði nokkuð skelfilegan hlut hér fyrir aðeins tveimur vikum þannig ég ákvað að skilja hann eftir heima í dag,“ sagði Parker.

Enska knattspyrnusambandið er enn að rannsaka atvikið sem átti sér stað í deildarleiknum. Ef Osmajic verður fundinn sekur um kynþáttaníð þá bíður hans að minnsta kosti sex leikja keppnisbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert