„Þetta er versta tækling sem ég hef séð“

Mateta fékk súrefni á vellinum áður en hann var fluttur …
Mateta fékk súrefni á vellinum áður en hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. AFP/Glyn Kirk

Jean-Phillipe Mateta, framherji Crystal Palace, er heppinn að vera á lífi að mati Steve Parish, stjórnarformanns Crystal Palace eftir að hafa orðið fyrir skelfilegri tæklingu í upphafi leiks liðsins gegn Millwall í gær.

Liam Roberts, markvörður Millwall, fékk rautt spjald fyrir að sparka í höfuðið á Mateta. Tækling sem líktist frekar karatesparki heldur en einhverju sem á að gerast á fótboltavelli.

Mateta lá óvígur eftir á vellinum og var langt hlé gert á leiknum á meðan hlúið var að franska framherjanum. Hann fékk súrefni og var síðar fluttur með sjúkrabíl frá leikvanginum. Hann þurfti síðar að fá saumuð 25 spor í eyrað sem var illa farið.

Steve Parish mætti í viðtal hjá BBC One í hálfleik og sagði að Mateta væri illa haldinn. Þá vandaði hann Liam Roberts ekki kveðjurnar.

„Það sem við vitum núna er að hann er með stóran skurð rétt við eyrað. Á öllum þeim tíma sem ég hef fylgst með fótbolta þá er þetta versta tækling sem ég hef séð. Markvörðurinn þarf að hugsa sinn gang því hann stofnaði ferli og jafnvel lífi Mateta í stórhættu með þessari tæklingu,“ sagði Parish.

Oliver Glasner, knattspyrnustjóri Crystal Palace, sagði að tæklingin hafi getað gert út um feril Mateta.

„Hann er á spítala og ég heyrði að hann væri með meðvitund en hann varð fyrir alvarlegum meiðslum á eyra,“ sagði Glasner.

„Ég vildi ekki horfa á atvikið eftir leikinn, því ég vil ekki horfa á mína menn verða fyrir meiðslum, en mér var sagt að ég yrði að tala um þetta þannig að ég horfði. Þetta var gjörsamlega hræðileg tækling. Ímyndaðu þér ef hann hefði hitt beint framan á andlitið á honum. Hann fer í þessa tæklingu af miklum krafti og með takkana á undan sér. Það hefði endað ferilinn hjá Mateta,“ sagði Glasner.

Mateta liggur óvígur eftir á vellinum eftir tæklingu Liam Roberts.
Mateta liggur óvígur eftir á vellinum eftir tæklingu Liam Roberts. AFP/Glyn Kirk

Alex Neil, knattspyrnustjóri Millwall, kom sínum manni til varnar.

„Hann reyndi að ná boltanum en misreiknaði sig og sparkaði í Mateta. Þetta er ekkert stærra en það frá mínu sjónarhorni. Hann var ekki að reyna að meiða sóknarmanninn eða neitt svoleiðis. Við óskum Mateta alls hins besta og vonum að hann komi aftur á völlinn sem fyrst,“ sagði Neil.

Mateta skrifaði kveðju á samfélagsmiðla í gærkvöldi sem Crystal Palace birti síðan. Þar þakkar hann fyrir kveðjurnar og segist líða vel. Hann vonast til að koma til baka inn á völlinn fyrr heldur en síðar og sterkari en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert