Bandaríska knattspyrnufélagið San Diego fordæmir níð eigin stuðningsmanna í garð samkynhneigðra eftir að þeir hrópuðu ljótt orð margsinnis á meðan leik liðsins gegn St. Louis City stóð í MLS-deildinni á laugardag.
Um fyrsta heimaleik San Diego var að ræða í deildinni en félagið er nýstofnað. Orðið er hrópað á spænsku og bókstafleg merking þess er vændiskarl.
Félög í mexíkósku deildinni og knattspyrnusamband Mexíkó hafa margsinnis verið sektuð vegna notkunar stuðningsmanna á orðinu á meðan leikjum þeirra hefur staðið.
„Það sem átti sér stað á meðan fyrsta heimaleik okkar í sögunni stóð endurspeglar ekki félagið né þau gildi sem við stöndum fyrir.
Notkun orðalag sem níðist á samkynhneigðum er með öllu óásættanlegt og verður ekki umborið. San Diego FC byggir á virðingu og þeirri trú að knattspyrna sé fyrir alla,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu félagsins.