Arsenal setti upp sýningu – Hákon kom Lille í góð mál

Þrír leikir fóru fram í fyrri umferð 16-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Arsenal og Real Madrid eru í góðum málum fyrir seinni leikina og Hákon Arnar Haraldsson sá til þess að franska liðið Lille er í fínum séns á að komast áfram.

Enska liðið Arsenal er svo gott sem komið áfram eftir stórsigur á hollenska liðinu PSV, 7:1, í fyrri leik liðanna í Hollandi.

Hollendingurinn Jurrien Timber kom Arsenal yfir á 18. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Declan Rice í netið af stuttu færi. Einungis þremur mínútum síðar tvöfaldaði Arsenal svo forystu sína en þá skoraði hinn bráðefnilegi Ethan Nwaneri með föstu skoti úr teignum eftir undirbúnings annars unglings, Miles Lewis-Skelly.

Það var svo Mikel Merino, miðjumaðurinn sem hefur verið að leysa af sem framherji undanfarið, sem skoraði þriðja markið. Varnarmenn PSV komu sér þá í alls konar vandræði inni í eigin teig og mistókst í nokkur skipti að koma boltanum frá, sem varð til þess að hann datt fyrir aleinan Merino sem þakkaði fyrir sig og lagði boltann í hornið.

Jurrien Timber fagnar marki sínu í kvöld.
Jurrien Timber fagnar marki sínu í kvöld. AFP/John Thys

PSV-liðið var þó ekki alveg af baki dottið og á 43. mínútu minnkaði Noa Lang muninn úr vítaspyrnu eftir að Thomas Partey hafði brotið á Luuk De Jong.

Það voru svo ekki nema rétt rúmlega 60 sekúndur liðnar af seinni hálfleik þegar Arsenal komst aftur í þriggja marka forystu. Nwaneri átti þá fyrirgjöf frá hægri sem Walter Benitez markvörður PSV sló beint fyrir fætur Martin Ödegaard sem renndi boltanum auðveldlega í netið.

Mínútu síðar bætti Arsenal svo við fimmta markinu. Riccardo Calafiori og Leandro Trossard spiluðu þá skemmtilega sín á milli á vinstri kantinum sem endaði með því að sá síðarnefndi komst einn gegn Benitez og lyfti boltanum skemmtilega yfir hann úr þröngu færi vinstra megin í teignum.

Ethan Nwaneri kom Arsenal tveimur mörkum yfir.
Ethan Nwaneri kom Arsenal tveimur mörkum yfir. AFP/John Thys

Á 73. mínútu bætti Ödegaard svo við öðru marki sínu og sjötta marki Arsenal. Hann fékk þá að vaða óáreittur að teignum og átti skot sem Walter Benitez náði ekki að verja, jafnvel þrátt fyrir að það væri svo gott sem beint á markið.

Arsenal-menn voru ekki hættir en á 85. mínútu bætti Calafiori við sjöunda markinu. Martin Ödegaard fann hann þá í hlaupinu inn á teiginn og ítalski bakvörðurinn kláraði færið eins og sannur framherji framhjá Benitez í markinu. Reyndist þetta síðasta mark leiksins og þarf PSV sannkallað kraftaverk til að komast áfram í seinni leiknum sem fram fer á Emirates-vellinum í Englandi.

Meistararnir lögðu grannana

Real Madrid lagði granna sína í Atletico Madrid, 2:1, á Santiago Bernabeu, heimavelli Real í borgarslag.

Real byrjaði leikinn af miklum krafti og kom Rodrygo liðinu yfir strax á 4. mínútu. Federico Valverde átti þá frábæra sendingu upp hægri kantinn þar sem Rodrygo fór mjög illa með Javi Galán, vinstri bakvörð Atletico, áður en hann fór inn á völlinn og þrumaði boltanum í fjærhornið.

Rodrygo fagnar því að hafa komið Real Madrid yfir í …
Rodrygo fagnar því að hafa komið Real Madrid yfir í kvöld. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Atletico jafnaði metin á 32. mínútu en það gerði Julian Alvarez með stórkostlegu marki. Hann fékk boltann þá vinstra megin við vítateiginn, rak hann að vítateigshorninu áður en hann smurði boltanum í fjærhornið, óverjandi fyrir Thibaut Courtois í marki Real.

Heimamenn í Real náðu hins vegar forystunni á nýjan leik á 55. mínútu og var það enn eitt glæsimarkið. Brahim Díaz fékk boltann þá umkringdur varnarmönnum Atletico vinstra megin í teignum, en tókst á einhvern hátt að dansa með boltann á milli þeirra og smella boltanum síðan alveg út við stöngina hægra megin.

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum en einvígið er þó enn galopið. Seinni leikurinn fer fram á Wanda Metropolitano, heimavelli Atletico Madrid.

Hákon kom Lille í góð mál

Í Þýskalandi skildu Dortmund og Lille jöfn, 1:1. Hákon Arnar Haraldsson var í byrjunarliði Lille eins og venjulega og skoraði mark liðsins í leiknum. Heimamenn í Dortmund sem komust yfir á 22. Mínútu þegar Karim Adeyemi fékk boltann skoppandi til sín rétt fyrir utan teig og þrumaði honum í bláhornið. Algjörlega frábær afgreiðsla hjá Þjóðverjanum.

Hákon Arnar fagnar í kvöld.
Hákon Arnar fagnar í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Á 68. mínútu var það svo Hákon sem jafnaði metin fyrir Lille. Jonathan David fékk boltann þá með bakið í markið rétt fyrir utan teig og laumaði honum inn fyrir á Hákon sem kláraði mjög vel úr teignum.

Fátt annað markvert gerðist í Þýskalandi en heilt yfir var leikurinn frekar bragðdaufur. Það er allt jafnt fyrir seinni leikinn sem fer fram á heimavelli Lille í Frakklandi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Haukar 25:28 FH opna
60. mín. Jóhannes Berg Andrason (FH) skoraði mark

Leiklýsing

Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 21:54 Textalýsing Leik lokið. Borussia Dortmund 1:1 Lille.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert