Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Jónas Grani Garðarsson hefur tjáð sig um brottreksturinn frá belgíska félaginu Kortrijk en þar var hann yfirmaður sjúkraþjálfunar.
Gekk hann í raðir félagsins þegar Freyr Alexandersson var þjálfari liðsins en Jónas var látinn fara stuttu eftir að félagið rak Frey.
Jónas lék á sínum tíma fyrir Fjölni, HK, Fram, FH og Völsung, áður en hann byrjaði að starfa sem sjúkraþjálfari og þar á meðal hjá Aspetar í Katar.
„Eftir að hafa fengið svipað spark og Freyr í rassinn í byrjun janúar hefur lífið verið frekar rólegt hérna í Belgíu. Rassinn var aumur en sálin og samviskan góð. Það var ný upplifun að vera rekinn og sjaldgæft þegar maður hefur -sjúkra- titilinn fyrir framan þjálfari.
En ég mun aldrei gefa eftir varðandi mikilvægi þess að varðveita viðkvæmar upplýsingar (sjúkraupplýsingar) - það eru upplýsingar sem þarf að varðveita á sem bestan veg. Það vita allir, vonandi, sem starfa í heilbrigðisþjónustu," skrifaði hann m.a. á Facebook.