Ilian Iliev sagði upp störfum sem landsliðsþjálfari karlaliðs Búlgaríu í fótbolta í dag með tölvupósti sem hann sendi knattspyrnusambandi þjóðarinnar.
RTE á Írlandi greinir frá. Sambandið fundar í næstu viku til að ákveða hvort það samþykki uppsögnina en Iliev var ráðinn landsliðsþjálfari í nóvember árið 2023.
Næstu leikir Búlgaríu eru gegn lærisveinum Heimis Hallgrímssonar í Írlandi í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Írland endaði í 3. sæti í sínum riðli í B-deildinni, rétt eins og Ísland í sínum, á meðan Búlgaría hafnaði í öðru sæti í sínum riðli í C-deild.