Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var eins og aðrir frá sér numinn yfir frammistöðu Alissons í markinu þegar liðið vann 1:0-sigur á París SG í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í París í gærkvöldi.
PSG réði lögum og lofum, fékk hvert tækifærið á fætur öðru en Alisson varði allt sem á markið kom. Sjálfur sagði hann líklega um bestu frammistöðu sína á ferlinum að ræða.
Harvey Elliott skoraði sigurmark Liverpool undir lok leiks úr öðru skoti liðsins og því eina á markið í leiknum. Á meðan PSG átti 27 skot, mörg hver úr dauðafærum.
„Ég hef þjálfað fjölda mjög góðra leikmanna sem knattspyrnustjóri en aldrei besta markvörð heims, fyrr en nú.
Hann sýndi að hann er sá besti í heiminum í dag. Að fara héðan með sigur í farteskinu er líklega aðeins meira en við áttum skilið,“ sagði Slot í samtali við TNT Sports eftir leikinn.