„Besta frammistaða lífs míns“

Alisson og Harvey Elliott fagna ótrúlegum sigri Liverpool í gærkvöldi.
Alisson og Harvey Elliott fagna ótrúlegum sigri Liverpool í gærkvöldi. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Alisson, markvörður Liverpool, telur magnaða frammistöðu sína í 1:0-sigri á París SG í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi líklega sína bestu á ferlinum.

Brasilíumaðurinn lokaði beinlínis markrammanum en PSG þjarmaði að Liverpool allan leikinn. Varði hann níu skot. Alisson hefur aldrei varið svo oft í einum leik með Liverpool, sem hann hefur leikið með undanfarin tæp sjö ár.

„Já, þetta var líklega besta frammistaða lífs míns, hingað til vonandi. Stjórinn sagði okkur hversu erfitt það yrði að spila gegn PSG, hve góðir þeir eru með boltann og að við þyrftum að vera reiðubúnir að þjást,“ sagði Alisson í samtali við TNT Sports eftir leikinn.

„Ég er orðlaus“

Harvey Elliott, hin hetja Liverpool sem skoraði sigurmarkið með sinni fyrstu snertingu í leiknum, tjáði sig einnig um frammistöðu markvarðarins.

„Ég er satt að segja orðlaus. Þessi gaur er ótrúlegur, hann er sá besti í heimi. Hann sýnir það í hverjum einasta leik, hann heldur okkur inni í svo mörgum leikjum.

Eins og í kvöld þar sem ég fékk tækifæri til þess að endurgjalda þessum manni. Ég veit ekki hvar við værum án hans,“ sagði Elliott við TNT Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert