Brasilíski markvörðurinn Alisson náði ekki að koma sér í afar fámennan hóp knattspyrnumanna sem hafa fengið tíu af tíu í einkunn hjá franska íþróttablaðinu L’Équipe.
L’Équipe er þekkt fyrir að gefa engan afslátt og dæma leikmenn harkalega. Telst það því saga til næsta bæjar þegar leikmaður fær fullkomna tíu í einkunn hjá blaðinu fyrir frammistöðu sína í leik.
Stórbrotin frammistaða Alissons í 1:0-sigri Liverpool á París SG í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu dugði þó ekki til þess að fá tíu í einkunn. Brassinn fékk níu fyrir frammistöðu sína L’Équipe.
Aðeins 16 leikmenn hafa fengið tíu í einkunn hjá blaðinu undanfarna áratugi, fyrstu tveir leikmennirnir árið 1988.
Á undanförnum árum hafa leikmenn á við Erling Haaland, Kylian Mbappé, Neymar, Ademola Lookman, Lucas Moura og Serge Gnabry fengið tíu í einkunn hjá blaðinu.
Goal.com tók saman listann yfir alla leikmennina sem hafa fengið einkunnina eftir að Lookman varð sá síðasti á blað með fullkominni frammistöðu í sigri Atalanta á Bayer Leverkusen í maí á síðasta ári.