Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur úrskurðað þjálfarann Patrick Assoumou Eyi í lífstíðarbann fyrir að nauðga ungum drengjum þegar hann var þjálfari U17 ára landsliðs Gabons.
Þá hefur honum einnig verið gert að greiða milljón svissneskra frakka í sekt, eða því sem nemur rúmum 160 milljónum króna.
Eyi er þjóðþekktur þjálfari í heimalandi sínu en hann lét af störfum hjá knattspyrnusambandi Gabon árið 2017. Hann hefur síðan þá starfað sem ráðgjafi efstu deildar karla þar í landi.
Einn af starfsmönnum gabonska knattspyrnusambandsins viðraði áhyggjur sínar af Eyi við forráðamenn sambandsins árið 2019 en var rekinn skömmu síðar úr starfi.
Pierre-Alain Mounguengui, forseti gabonska knattspyrnusambandsins, er grunaður um að hafa vitað af brotum Eyi en ekki tilkynnt þau.