Játaði manndráp og spilaði sama dag

Lucas Akins í leik með Mansfield Town.
Lucas Akins í leik með Mansfield Town. Ljósmynd/EFL

Knattspyrnumaðurinn Lucas Akins lék fyrir Mansfield Town í markalausu jafntefli gegn Wigan Athletic í ensku C-deildinni, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa játað að bera ábyrgð á dauða hjólreiðamanns.

Akins, sem er 36 ára, mætti fyrir rétt í Leeds á þriðjudag og játaði að hafa ekið Mercedes-bifreið sinni af gáleysi á Adrian Daniel er Daniel var við hjólreiðar í Huddersfield í mars árið 2022.

Síðar sama dag var hann í byrjunarliði Mansfield og lék fyrri hálfleikinn gegn Wigan.

Allt að fjögurra ára fangelsi

Daniel var fluttur á sjúkrahús eftir að Akins ók á hann og lést af sárum sínum tíu dögum síðar, 33 ára að aldri. Refsing í málinu verður ákvörðuð 24. apríl næstkomandi.

Brotið getur varðað allt að fjögurra ára fangelsi en Akins gæti einnig sloppið við fangelsisvist og verið skikkaður til samfélagsþjónustu.

Hann hefur spilað fyrir Mansfield allt frá óhappinu og hefur félagið ekki viljað tjá sig um málið. Nigel Clough, knattspyrnustjóri Mansfield, var spurður út í játningu Akins á sekt sinni af breska ríkisútvarpinu en vildi sömuleiðis ekkert segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert